Norska olíufélagið Statoil er mesta peningamaskína á norðurslóðum að sögn Bergens Tidende. Er þar vísað til afkomu félagsins á árinu 2004, en methagnaður var fyrir skatta á árinu og nam hann 70,8 milljörðum norskra króna, eða sem svarar ríflega 682 milljörðum íslenskra króna. Er þessi afkoma miklu betri að sögn blaðsins en hjá nokkru öðru fyrirtæki á norðurslóðum.

Statoil græðir á tá og fingri á því gríðarlega háa olíuverði sem verið hefur á heimsmarkaði á undanförnum misserum. Á sama tíma og framleiðsluvörur Statoil hafa hækkað í verði hafa framleiðsluvörur annarra iðnaðarrisa á Norðurlöndum eins og Nokia og Ericsson verið að lækka í verði. Heildarvelta Statoil í fyrra nam 306,2 milljörðum norskra króna (tæpum 2.950 milljörðum ísl. kr.) sem er 23,1% aukning frá fyrra ári.

Auk mikils gróða Statoil sem stafar að mestu af háu verði á olíu og gasi, þá hefur fyrirtækið einnig verið að skilað 5,7 milljörðum n.kr. í fjármagnstekjur.