Norska olíufélagið Statoil hefur selt hlut sinn í olíuvinnslusvæði í Kaspíahafi sem og olíuleiðslu á sama svæði til malæsíska olíu- og gasfyrirtækisins Petronas. Söluverðið er um 2,25 milljarðar dala, eða um 270 milljarðar króna.

Samkvæmt frétt New York Times lætur Statoil af hendi 15,5% hlut í Shah Deniz olíuvinnslusvæðinu, 15,5% hlut í South Caucasus Pipeline olíuleiðslufyrirtækinu, sem flytur gas frá Azerbaijan til Tyrklands og Georgíu, sem og 12,4% hlut í gasfyrirtæki í Azerbaijan.

Stærsti eigandi Olíuvinnslusvæðisins er breska orkufyrirtækið BP, sem á um 28,8% hlut í framleiðslu svæðisins. Haft er eftir Lars Christian Bacher, framkvæmdastjóra þróunar og alþjóðaframleiðslu hjá Statoil, að salan muni auka sveigjanleika fyrirtækisins til frekari þróunar. Statoil á eftir söluna hlut í öðru olíuvinnslusvæði í Kaspíahafi.