Samtök ferðaþjónustunnar funduðu nýlega með fulltrúum stjórnmálaflokka í Suðvesturkjördæmi. Þar kom meðal annars fram að SAF áætlar að ríkissjóður fái 445 milljarða króna í skatta og gjöld af erlendum ferðamönnum á næstu fjórum árum. Þessi áætlun byggir á spá um 13-20% fjölgun ferðamanna á ári á tímabilinu.

Í tilkynningu frá SAF kemur einnig fram að: „Á fundinum með fulltrúum flokkanna bentu SAF á mikilvægi þess að byggja upp nauðsynlega innviði til að mæta fjölgun ferðamanna og tryggja ávinninginn af komu þeirra. Að öðrum kosti væri veruleg hætta á því að félagsleg þolmörk íbúa myndu bresta og álag á vinsæla ferðamannastaði færi úr böndunum. Með réttri fjárfestingu mætti bregðast við í tæka tíð til að tryggja ánægju gesta jafnt sem heimamanna og að ferðaþjónustan verði sjálfbær.“

8 milljörðum á ári varið í uppbyggingu

Formaður SAF, Grímur Sæmundsen, benti á að í Vegvísi í ferðaþjónustu áætla samtökin að hið opinbera þurfi að verja um 8 milljörðum króna á næstu fjórum árum í nauðsynlega uppbyggingu. Þessi upphæð væri 7% af áætluðum tekjum ríkissjóðs af ferðaþjónustunni á tímabilinu.

„Þau verkefni sem fyrir liggur að ráðast þurfi í snúa m.a. að bættri upplýsingagjöf, öryggi ferðamanna, áhættustýringu, náttúruvernd, uppbyggingu áfangastaða, salernisaðstöðu, stuðningi við menntun og raunfærnimat, dreifingu ferðamanna og lagabreytingum sem stuðla að skilvirkari stjórnsýslu fyrir ferðaþjónustuna.
Áætlað er að erlendir ferðamenn skili 440 milljarða króna gjaldeyristekjum á þessu ári og beinar tekjur ríkissjóðs vegna þeirra verði um 70 milljarðar króna,“ segir að lokum í tilkynningunni.