Daninn Steen Hemmingsen og Bretinn Colin S. Smith, sem báðir hafa setið í stjórn Arion banka, eru hættir í stjórn bankans. Þetta staðfesti Iða Brá Benediktsdóttir, forstöðumaður samskiptasviðs Arion banka.

Steen hætti í stjórn að eigin ósk. Colin hefur sinnt ráðgjöf fyrir bankann og sagði sig fljótlega úr stjórn bankans til þess að geta einbeitt sér fremur að ráðgjafarstörfum.

Steen hætti störfum meðal annars vegna þess að hann treysti sér ekki til þess að starfa hér á landi samhliða öðrum verkefnum en hann tók nýlega sæti í stjórn Amagerbanken í Danmörku í umboði danska ríkisins. Steen hefur áratuga reynslu af stjórnunarstörfum í dönsku efnahagslífi og hefur þar að auki sinnt störfum fyrir Viðskiptaháskólann í Kaupmannahöfn, meðal annars sem prófdómari, allt frá því hann útskrifaðist þaðan með doktorspróf 1973.

Steen og Colin skrifuðu báðir undir hálfs árs árshlutauppgjör Arion banka en í stað þeirra skrifa Guðrún Björnsdóttir og Jón G. Briem undir árshlutauppgjör fyrir þriðja ársfjórðung, sem gert var opinbert í dag. Þau eru bæði varamenn í stjórn samkvæmt upplýsingum á vefsíðu bankans. Nýir stjórnarmenn munu taka sæti í stjórn Arion banka á aðalfundi  sem er fyrirhugaður er 24. mars næstkomandi.

Í stjórn Arion banka eru nú Monica Caneman, sem er formaður stjórnar, Guðrún Johnsen, Kristján Jóhannsson og Theódór S. Sigurbergsson.