Icelandic Water Holdings ehf., sem framleiðir Icelandic Glacial vatnið, hefur ráðið Stefán Á. Magnússon sem framkvæmdastjóra fjármálasviðs. Hann mun hefja störf hjá félaginu þegar í stað.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Þar kemur fram að Stefán kemur til fyrirtækisins frá Eimskipafélagi Íslands þar sem hann var aðstoðarforstjóri samstæðunnar auk þess að vera framkvæmdastjóri fjármálasviðs. Meðal verkefna sem Stefán sinnti hjá Eimskipum voru fjármögnun á samstæðunni, sjóðsstreymis- og áhættustýring, stefnumótun félagsins og stjórnarseta í dótturfélögum Eimskipa. Hann hóf störf hjá félaginu árið 2002.   Áður en Stefán kom til Eimskipa var hann hjá Þórsbrunni hf. þar sem hann var fjármálastjóri á árunum 2000-2002.

Stefán lauk námi í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands árið 1993 og útskrifaðist með cand. merc. gráðu í fjármálum og reiknishaldi frá Copenhagen Business School árið 1997.

„Icelandic Water Holdings stendur á tímamótum um þessar mundir. Góður árangur er að baki, Icelandic Glacial er nú til sölu víða um heim og vatnið hefur fengið góða dreifingu í  Bandaríkjunum enda mikill styrkur að samstarfinu við Anheuser Busch,“ segir Stefán í tilkynningunni.

„Þessi góði árangur, ásamt nýrri verksmiðju sem við opnum í dag, er svo sannarlega gott veganesti inn í framtíðina.“