Aðeins 13,7 milljónir króna fengust upp í rúmlega 3,7 milljarða króna kröfur í þrotabú Stefáns H. Hilmarssonar, fyrrverandi fjármálastjóra Baugs Group. Skiptum lauk á miðvikudag þegar skiptastjóri kynnti frumvarp til úthlutunar úr þrotabúinu.

Kröfur í þrotabúið voru af ýmsum toga. Stefán hafði m.a. eins og stjórnendur Baugs fengið lán til kaupa á hlutabréfum félagsins. Kaupþing lánaði BGE Eignarhaldsfélagi fjármagn sem var lánað áfram en hlutabréfin í Baugi voru veð á móti skuldum. Hlutabréfin eru verðlaus í dag. Aðrir kröfuhafar voru m.a. gamli og nýi Landsbankinn, Landsbankinn í Lúxemborg og Pillar Securisation, einkabankalánaþjónusta Kaupþings í Lúxemborg.

Vildi rifta sölu á húsinu

Áður en Stefán var úrskurðaður gjaldþrota í Héraðsdómi Reykjavíkur í júlí árið 2010 seldi hann félagið Vegvísi sem átti hús hans við Laufásveg. Skiptastjóri þrotabúsins höfðaði nokkur riftunarmál til að ógilda viðskiptin, ná fasteigninni inn í þrotabúið og ná fram lækkun nokkuð hundrað milljóna króna veða frá Byr, sem Íslandsbanki eignaðist síðar, sem á því hvíldu. Það tókst ekki og var þrotabúinu því lokað.

Fram kemur í Lögbirtingablaðinu að samtals námu lýstar kröfur í þrotabú Stefáns 3.759.196.411 króna auk áfallinna vaxta og kostnaðar eftir úrskurðardag. Búskröfur námu alls 11.421.931 króna og greiddust þær að fullu. Greiðslur upp í veðkröfur námu 60.957.612 króna en heildarfjárhæð lýstra veðkrafna nam 2.508.696.351 króna. Heildarfjárhæð almennra krafna, að meðtöldum ógreiddum veðkröfum, nam 3.616.947.104 króna. Upp í almennar kröfur greiddust kr. 2.339.613 króna eða um 0,0006%.