Stefán Einar Stefánsson, siðfræðingur, lýsti í gær yfir framboði til formanns VR á framhaldsaðalfundi félagsins.

Kosningar verða haldnar í mars næstkomandi.

Í tilkynningu frá Stefáni Einari segist hann hafa tekið þessa ákvörðun að vandlega yfirlögðu ráði og eftir áskoranir frá félagsmönnum sem uggandi eru yfir þeirri óeiningu sem ríkir innan stjórnar félagsins.

„Nú þegar kjaraskerðing félagsmanna er orðin óbærileg, kjarasamningar eru lausir og sífellt þrengir meira að heimilunum í landinu, er nauðsynlegt að stærsta verkalýðsfélag landsins sé í stakk búið til að láta til sín taka,“ segir Stefán Einar í tilkynningunni.

„Tryggja þarf að eðlileg sátt ríki um verklag á vettvangi stjórnar VR til þess að félagið geti sinnt þeirri hagsmunagæslu sem félagsmenn eiga heimtingu á að það geri.“

Þá segir Stefán Einar að á næstu vikum muni hann leggja sig fram um að hitta félagsmenn VR og kynna fyrir þeim þau mál sem hann vill leggja áherslu á, fái hann brautargengi í kosningunum.

„Þar mun ég m.a. varpa ljósi á þær hugmyndir sem ég tel að duga muni best við að ná sátt milli stjórnarmanna. Það mál eitt og sér mun betur gera skrifstofu félagsins, sem skipað er framúrskarandi starfsfólki, kleift að sinna þeirri þjónustu við félagsmenn sem félagið byggir grundvöll sinn á,“ segir Stefán Einar.

Loks segir Stefán Einar að formaður VR þurfi að taka slaginn fyrir félagsmenn, hvar sem því verður við komið og tryggt er að það skili árangri í kjara- og réttindabaráttu þeirra. Til þess verks þurfi að veljast einstaklingur sem þori að fylgja málum fast eftir en treystir sér um leið til að stuðla að málamiðlunum í þeim tilvikum þar sem það er farsælast.

„Ég óska þess að kosningabaráttan í VR verði háð af heiðarleika og réttsýni þar sem áhersla er lögð á þau málefni sem félaginu er ætlað að sinna,“ segir Stefán Einar.

„Persónulegt hnútukast og ærumeiðingar eiga að tilheyra fortíðinni. Heiðarleiki og virðing fyrir einstaklingum eru gildi sem leiða þarf til öndvegis í samfélaginu. VR er góður vettvangur til að hefja þá vegferð.