Stjórn Ríkisútvarpsins ohf. (RÚV) hefur ráðið Stefán Eiríksson útvarpsstjóra til næstu fimm ára. Ákvörðunin var tekin á fundi stjórnar í RÚV í gær. Þetta kemur fram í tilkynningu frá RÚV.

Í tilkynningunni kemur fram að Stefán hafi mikla reynslu af stjórnun og rekstri. Hann hefur meðal annars verið skrifstofustjóri og staðgengill í dómsmálaráðuneytinu árin 2002-2006, lögreglustjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu árin 2007-2014, því næst sem sviðsstjóri velferðarsviðs borgarinnar og nú síðast borgarritari frá árinu 2016.

Stefán lauk lagaprófi frá Háskóla Íslands árið 1996 og lögmannsréttindum ári síðar.