Stefán Friðriksson, framkvæmdastjóri Ísfélags Vestmannaeyjum, segir það verða tekið til skoðunar hvort eignir útgerðarfélagsins Bergur-Huginn verði keyptar standi þeim það til boða. Eins og áður hefur verið greint frá hefur Síldarvinnslan á Neskaupsstað samið um kaup á eignum Bergs-Hugins. Bæjarstjórn Vestmannaeyja telur sig hins vegar eiga forkaupsrétt að tveimur skipum og kvóta útgerðarinnar. Ekkert hefur verið gefið upp um það hvað Síldarvinnslan greiðir fyrir Berg-Huginn.

„Við skoðum ýmsa hluti,“ segir Stefán Friðriksson í samtali við vb.is. „En í fyrsta lagi þarf þetta að standa okkur til boða. Í öðru lagi þarf að skoða hvert verðið er og hver arðsemi slíkra hluta geti verið. Við munum auðvitað skoða það af áhuga,“ segir Stefán en leggur áherslu á að þetta eigi almennt við um fjárfestingar Ísfélagsins.

Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum, sagði í samtali við vb.is fyrr í dag veiðileyfagjaldið binda hendur útgerðinnar og hafi hún ekki mikið svigrúm til fjárfestinga, hvorki í tækjum né tólum.