Stefán Friðriksson aðstoðarframkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum hefur sagt upp störfum og hefur verið ráðinn sem framkvæmdastjóri Ísfélags Vestmannaeyja hf.

„Ég hef sagt við mína samstarfsmenn í dag að þegar maður er búinn að vera stýrimaður í tæp 13 ár á góðu skipi og er boðið að vera skipstjóri á góðu skipi sé ekkert skrítið að taka því tilboði," segir Stefán aðspurður um vistaskiptin.

Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, sem er þekktur undir nafninu Binni í Vinnslustöðinni, er framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar. Oft hefur verið stirt á milli stjórnenda Vinnstlustöðvarinnar og Ísfélags Vestmannaeyja, þangað sem Stefán færir sig.

Stefán segir þetta allt gert í góðu og engin leiðindi tengist þessari ákvörðun hans. Það séu atvinnumenn sem stjórni báðum fyrirtækjunum og nú fari orka þeirra og starfsfólks í að einbeita sér að loðnuvertíðinni sem skipti miklu máli fyrir útgerðina.