„Við höfum orðið sammála um, ásamt íslenskum yfirvöldum, að setja á fót vinnuhóp til að meta stöðu mála og möguleikana á því að aflétta gjaldeyrishöftunum og aðstoða við að móta sameiginlegan skilning á erfiðleikunum í því ferli.“

Þetta kemur fram í grein Stefan Füle, framkvæmdastjóra stækkunar- og nágrannastefnu ESB, í Morgunblaðinu í dag.

Í greininni segir Stefan Ísland hafa lagt á sig sársaukafullar og mikilsverðar byrðar til að jafna sig á efnahagserfiðleikunum og sé landið á góðri leið með að standast þær þrautir sem enn bíði. Ein þeirra sé að losna við gjaldeyrishöftin svo fljótt sem mögulegt sé.

Stefan fjallar einnig um Icesace og skýrir þar ástæður þess að framkvæmdastjórn ESB ákvað að hafa meðalgöngu hjá EFTA-dómstólnum í því máli. Hann segir þau áður hafa haft svipaðan hátt á öðrum málum og sé það gert í þeim tilgangi einum að stuðla að lagalegri vissu um skuldbindingar allra aðila, þar á meðal Evrópusambandsins.

„Þetta er ekki fjandsamleg aðgerð sem beinist sérstaklega að Íslandi, heldur snýst þetta um að uppfylla eina af höfuðskyldum framkvæmdastjórnarinnar, nefnilega að tryggja að reglur ESB séu virtar og að staðið sé við skuldbindingar,“ segir Stefan.