Stefán Haukur Jóhannesson, aðalsamningamaður Íslands í aðildarviðræðunum við Evrópusambandið, sótti í gær og í dag fund Evrópumálaráðherra ESB og umsóknarríkja í Dublin á Írlandi. Írar tóku einmitt við formennsku í ráðherraráði ESB um áramótin. Fundinn sótti sömuleiðis Stefan Fule framkvæmdastjóri stækkunarmála. Á fundinum greindi Stefán Haukur m.a. frá þeirri ákvörðun ríkisstjórnarinnar að hægja á aðild sinni.

Fram kemur í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu að meginumræðuefni fundarins var hvernig efla má lýðræði á vettvangi Evrópusamvinnunnar. Rætt var um leiðir til að auka lögmæti og ábyrgð stofnana sambandsins nú þegar samvinnan er að aukast meðal annars í efnahags- og gjaldmiðilsmálum, og hvernig efla má þátt þjóðþinga og Evrópuþingsins á því sviði.

Í tilkynningunni segir ennfremur að Stefán Haukur hafi í umræðum lagt áherslu á gagnsæi og samvinnu við ólíka hagsmunahópa. Hvort tveggja hefur reynst vel og innsýn og reynsla hagsmuna- og félagasamtaka hefur styrkt vinnu við mótun samningsafstöðu Íslands.