Stefán Héðinn Stefánsson, sem gegndi starfi aðstoðarforstjóra Sögu fjárfestingarbanka, hefur sagt upp störfum hjá félaginu, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Stefán Héðinn sagði upp störfum nú í janúar.

Stefán Héðinn var einn þeirra sem var færður til yfirheyrslu hjá sérstökum saksóknara þann 20. janúar sl. í tengslum við rannsókn á starfsemi Landsbankans fyrir hrun. Rannsókn sérstaks saksóknara snýr meðal annars að milljarða millifærslum til MP banka og Straums fjárfestingabanka af reikningi Landsbankans í Seðlabanka Íslands og kaupum Landsbankans af sjóðum Landsvaka eftir lokun sjóðanna. Stefán Héðinn var framkvæmdastjóri eignastýringasviðs Landsbankans og stjórnarformaður Landsvaka.

Þá hefur Geir Gíslason einnig sagt starfi sínu lausu sem framkvæmdastjóri útlánasviðs hjá Sögu. Geir hefur verið meðal lykilstjórnenda bankans frá því hann hóf störf á haustmánuðum 2006. Áður hafði hann starfað hjá Kaupþingi með Þorvaldi Lúðvík Sigurjónssyni, forstjóra Sögu fjárfestingarbanka.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hafa einnig orðið einhverjar mannabreytingar á stoðsviðum Sögu fjárfestingarbanka. Alls voru átta nýir starfsmenn ráðnir til bankans í fyrra.