Stefán Hrafn Hagalín hefur verið ráðinn forstöðumaður samskipta og markaðsmála hjá Háskólanum í Reykjavík. Hann kemur til HR frá Landspítala þar sem hann hefur starfað undanfarin fimm ár sem deildarstjóri samskipta. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Þar áður hafði Stefán Hrafn stýrt markaðsmálum og samskiptum um 20 ára skeið hjá Auðkenni, Odda, Advania, Skýrr, Teymi og Opnum kerfum.

Hann vann þar á undan sem blaðamaður við fjölmiðla í tíu ár, meðal annars sem fréttastjóri Alþýðublaðsins, þáttastjórnandi hjá Bylgjunni og Stöð 2 og ritstjóri Helgarpóstsins og Tölvuheims.

Í verkahring samskiptateymis Háskólans í Reykjavík eru markaðsmál og ásýnd skólans, innri og ytri samskipti, margvísleg útgáfa, viðburðir, samfélagsmiðlar og vefmál, almannatengsl og þjónusta við fjölmiðla. Samskiptateymið miðlar upplýsingum um starfsemi HR til starfsfólks, nemenda og almennings með sérstaka áherslu á vísindamiðlun, rannsóknir, nýsköpun og námsframboð.