Stefán Karl Segatta hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri fjármálasviðs hjá Skeljungi. Hann tekur við af Gunnari Þór Pálmasyni, sem horfinn er til starfa á öðrum vettvangi, eftir rúmlega áratugar störf hjá Skeljungi, að því er fram kemur í fréttatilkynningu.

Stefán Karl hóf störf hjá Skeljungi árið 2000, sama ár og hann útskrifaðist sem viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands. Fyrstu árin gegndi hann starfi deildarstjóra hagdeildar Skeljungs eða fram til ársins 2004, er hann tók við starfi framkvæmdastjóra innkaupasviðs. Því starfi gegndi hann svo næstu tvö árin eða allt þar til Stefán Karl tók við sem framkvæmdastjóri neytendasviðs Skeljungs á árinu 2006.