"Við erum rétt að átta okkur á heildarmyndinni þar sem tölurnar eru að koma inn úr búðum en okkur sýnist þetta hafa gengið vel," segir Stefán Pálsson sem gaf út Íslandssöguspilið fyrir jólin ásamt Ragnari Kristinssyni. "Við seldum sérstaklega mikið í verslunum Eymundsson en starfsfólki þar var líka mjög áhugasamt frá fyrsta degi. Það er greinilegt að í þessum bransa verður maður að hafa búðarfólkið með sér."

Viðbrögðin hafa verið jákvæð að sögn Stefáns enda nær öruggt að margir hafa legið yfir spilum og bókum síðustu daga. Þeir hafa því fengið mörg skilaboð frá fólki sem hefur spilað með fjölskyldunni. "Fleiri en einn hafa svo stungið upp á því að reynt verði að þróa snjallsímaútgáfu, hver veit nema við reynum að finna slíka samstarfsaðila næst."

Eftir áramótin stefna þeir Stefán og Ragnar á að fara með restina af upplaginu inn í skólana. "Markmiðið með útgáfunni var alltaf öðrum þræði að búa til spil sem myndi kveikja áhuga barna og unglinga á Íslandssögunni. Okkur finnst að þetta ætti að vera til í öllum skólum."

Spurður að því hvort þeir stefni að annarri spilaútgáfu næstu jól segir Stefán það ekki ákveðið. "Persónuleg amyndi ég ekki vilja sleppa því í desember að eiga eins og eina bók eða spil í jólaflóðinu. Það er dálítið gaman að þessari keppnisstemningu að þeytast milli staða í kynningu og hanga í búðum að spjalla við verslunarstjóra."