Borgarráð samþykkti í dag að ráða Stefán Eiríksson lögreglustjóra sem sviðsstjóra velferðarsviðs frá 1. september næstkomandi. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Reykjavíkurborg. Stefán hefur starfað sem lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu frá árinu 2007.

Í tilkynningunni segir að Stefán hafi verið talinn uppfylla best allra umsækjenda þær kröfur sem gerðar eru til starfs sviðsstjóra á velferðarsviði. Hann búi yfir leiðtogahæfileikum og hafi farsæla reynslu af stjórnun hjá hinu opinbera. Þá segir jafnframt að í starfi sínu sem lögreglustjóri hafi Stefán komið að fjölmörgum verkefnum á sviði velferðarmála.

Stefán lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands í febrúar 1996 og hdl. 1997. Hann hefur síðan sótt fjölmörg námskeið, sinnt kennslu í lögfræði á háskólastigi og verið fyrirlesari á ýmsum vettvangi.