Stefán Þór Stefánsson hefur tekið við starfi framkvæmdastjóra hjá TM Software ? Custom Development (áður Origo) af Einari Gunnari Þórissyni sem tekið hefur við nýju starfi hjá TM Software Healthcare.

Í tilkynningu félagsins kemur fram að Stefán hefur víðtæka reynslu af ábyrgðarstörfum tengdum fjármálum og sölu- og markaðsmálum fyrirtækja.

Hjá TM Software stýrir Stefán 34 starfsmönnum sem vinna að þróun sérhæfðra hugbúnaðarkerfa, vef- og viðskiptalausna fyrir Internetið fyrir mörg af stærstu fyrirtækjum og stofnunum landsins. Stefán ber ábyrgð á stjórnun og rekstri einingarinnar, stefnumótun og áætlanagerð. Auk þess sinnir hann samskiptum við viðskiptavini, samningagerð, sölu- og markaðsmálum.

Stefán, sem fæddist 1969, er með BA-gráðu í alþjóðlegum samskiptum frá Methodist College í Norður-Karólínu í Bandaríkjunum og hefur sótt fjölda námskeiða í tengslum við starf sitt.

Áður en Stefán tók við hinu nýja starfi var hann sölu- og markaðsstjóri TM Software ? Origo ehf. 2001-2005. Þar áður var hann markaðsstjóri Concorde Axapta Ísland ehf., sérfræðingur og ráðgjafi viðskiptalausna hjá Hug hf. og loks fjármála- og skrifstofustjóri Icewear ? Drífu ehf.