Stefán Gestsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Ratio hf. og tekur við starfinu af Bjarka Rafni Eiríkssyni sem lætur af daglegri stjórnun félagsins og tekur sæti í stjórn að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá félaginu.

Stefán hefur yfir 15 ára reynslu af störfum í kringum bygginga og jarðvinnugeirann. Frá því í desember 2016 hefur Stefán unnið hjá Ratio hf. sem flotastjóri og sem slíkur ábyrgur fyrir innkaupum og sölu. Stefán var framkvæmdastjóri fjármála- og þjónustusviðs Kraftvéla ehf. frá 2013 - 2016. Þar áður starfaði hann við sölu og ráðgjöf hjá Kraftvélum ehf. frá 2005 – 2009.

Stefán útskrifaðist með MABI gráðu frá Háskólanum í Reykjavík árið 2017 en hann er einnig með B.Sc. í viðskiptafræði með áherslu á reikningshald og fjármál frá sama skóla. Ratio hf. sérhæfir sig í flotaþjónustu og langtímaleigu með atvinnutæki og bíla til fyrirtækja. Félagið er í eigu sjóðs sem er í stýringu hjá GAMMA Capital Management hf. og lykilstarfsmanna.