Stefán Thors var í dag skipaður ráðuneytisstjóri í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.

Fram kemur í tilkynningu að embættið var auglýst laust til umsóknar þann 12. janúar síðastliðinn og þriggja manna ráðgefandi hæfnisnefnd skipuð til að meta hæfni umsækjenda um embætti við Stjórnarráð Íslands. Tuttugu sóttu um embættið og mat hæfnisnefnd tvo umsækjendur hæfasta, þau Sigríði Auði Arnardóttur og Stefán. Ráðherra tók að loknum viðtölum ákvörðun um að skipa Stefán Thors í embætti ráðuneytisstjóra í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.

Stefán Thors útskrifaðist með meistaragráðu frá skipulagsdeild Arkitektaskólans í Kaupmannahöfn árið 1976, að loknu sex ára háskólanámi og  lagði stund á viðbótarnám í skipulagsfræðum í Stokkhólmi árið 1978 og hefur sem skipulagsstjóri sótt fjölmörg námskeið m.a. á sviði stjórnunar og verkefnastjórnunar.  Hann hefur starfað hjá opinberum skipulagsyfirvöldum frá árinu 1976, að frátöldum fjórum árum sem hann vann sjálfstætt við ráðgjafarþjónustu í skipulagsmálum. Hann var skipaður skipulagsstjóri ríkisins árið 1985 og forstjóri Skipulagsstofnunar 1. janúar 2011. Alls hefur hann því rúmlega 27 ára reynslu af stjórnun.

Stefán er kvæntur Guðrúnu Gunnarsdóttur myndlistarmanni og eiga þau tvo uppkomna syni.