Stefán Rúnar Dagsson er nýr framkvæmdastjóri IKEA. Hann tekur við starfinu af Þórarni Ævarssyni sem sagði starfi sínu lausu um miðjan síðasta mánuð. Þetta kemur fram í tilkynningu frá IKEA.

Í tilkynningunni segir að Stefán Rúnar hafi hafið störf hjá IKEA fyrir 27 árum og gegnt stöðu verslunarstjóra síðastliðin ellefu. Síðustu þrjú ár hefur hann jafnframt verið aðstoðarframkvæmdastjóri.

IKEA opnaði á Íslandi árið 1981 og hefur nýr framkvæmdastjóri því starfað hjá fyrirtækinu í rúmlega 70 prósent þess tíma sem sænska keðjan hefur verið hér á landi. Þá hefur hann einnig tekið þátt í uppbyggingu verslana erlendis.

„Stjórn IKEA á Íslandi fagnar því að fá Stefán til starfa sem framkvæmdastjóra og er sannfærð um að hann stýri fyrirtækinu þannig að sterk staða vörumerkis IKEA eflist enn frekar um árabil,“ segir í tilkynningunni.

Stefán er giftur Rut Gunnarsdóttur og búa þau í Kópavogi ásamt tveimur börnum sínum.