„Mínu hlutverki var í sjálfu sér lokið,“ segir Stefán H. Hilmarsson, fyrrverandi fjármálastjóri 365 miðla. Hann hætti störfum hjá fjölmiðlafyrirtækinu í júlí í sumar og tók Sigrún L. Sigurjónsdóttir við starfi hans sem framkvæmdastjóri fjármálasviðs. Stefán hafði unnið hjá 365 miðlum í fimm ár þegar hann hætti. Hann var áður aðstoðarforstjóri og fjármálastjóri Baugs.

Stefán segir í samtali við VB.is að miklu hafi verið áorkað á þeim tíma sem hann var hjá 365. Félagið hafi greitt megnið af lánum sínum, eina fjóra milljarða króna með vöxtum og öðru til Landsbankans og Íslandsbanka. Með hlutafjárhækkun upp á einn milljarð króna sé 365 komið á gott ról.

Tilkynnt var um starfslok Stefáns samhliða ráðningu Sævars Freys Þráinssonar sem aðstoðarforstjóra 365 í maí. Í tilkynningu sagði að Stefán muni hverfa til annarra starfa fyrir eigendur 365. Helsti eigandi 365 er Ingibjörg Pálmadóttir, eiginkona Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, fyrrverandi stjórnarformanns og forstjóra Baugs. Stefán vildi ekki tjá sig um það í hverju störf hans nú eru fólgin.