Stefán H. Hilmarsson, fyrrverandi fjármálastjóri Baugs og núverandi fjármálastjóri 365 miðla, hefur sett 400 fermetra hús sitt að Laufásvegi í sölu. DV segir húsið metið á 115 milljónir króna en geta farið á allt að 200 milljónir.

DV rifjar upp að hús Stefáns hafi verið nokkuð í fréttum síðustu misserin. Mestu munar um hlutverk hússins í gjaldþroti Stefáns árið 2010 en hann seldi það til eignarhaldsfélagsins Vegvísis í eigu móður sinnar skömmu fyrir hrunið 2008 fyrir 150 milljónir króna. Hann flutti eftir það lögheimili sitt til Lúxemborgar en bjó eftir sem áður í húsinu. Skiptastjóri þrotabús Stefáns reyndi að rifta sölu hússins og fá Íslandsbanka til að létta af því veðum frá Byr sem á því hvíldu. Það tókst hins vegar ekki og lauk skiptum á þrotabúi Stefáns í ágúst síðastliðnum. Af tæplega 3,8 milljarða króna kröfum í bú Stefáns fengust tæpar 75 milljónir króna.

DV segir að á húsinu við Laufásveg hvíli 227,5 milljónir króna sem er rúmlega 100 milljónum hærri upphæð en fasteignamat hljóðar upp á. Miðað við veðsetningu hússins sé ljóst að eigandi veðanna, Byr – sem Íslandsbanki eignaðist í fyrra, sé í raun eigandi hússins.