Stjórn Vodafone (Fjarskipta hf.) hefur ráðið Stefán Sigurðsson í starf forstjóra Vodafone. Samhliða lætur Ómar Svavarsson af störfum hjá félaginu, en hann hefur verið forstjóri frá árinu 2009.

Stefán hefur frá október 2008 gegnt starfi framkvæmdastjóra eignastýringar Íslandsbanka. Í tilkynningu frá Vodafone segir að Stefán hafi mikla reynslu af rekstri, stefnumótun og innleiðingu, uppbyggingu sölu og þjónustu til einstaklinga og fagfjárfesta. Einnig segir að Stefán hafi víðtæka þekkingu á vöruþróun, markaðs- og samskiptamálum.

Stefán er með MSc gráðu í hagfræði frá Kaupmannahafnarháskóla og BSc gráðu á sama sviði frá Háskóla Íslands. Hann er fæddur árið 1972, kvæntur Rögnu Söru Jónsdóttur, forstöðumanni samfélagsábyrgðar hjá Landsvirkjun og eiga þau fjögur börn.