Stefán Snær Grétarsson hefur verið ráðinn Art Director hjá auglýsingastofunni Jónsson & Lemacks. Hann starfaði síðast sem hönnunar- og teiknistofustjóri hjá auglýsingastofunni Fíton en þar hóf hann störf árið 2005. Hann var hönnunarstjóri og meðal eigenda auglýsingastofunnar Máttarins og dýrðarinnar á árunum 1993 – 2005 og starfaði auk þess m.a. á Íslensku auglýsingastofunni og Svona gerum við á árunum 1984 – 1993.

Stefán útskrifaðist sem grafískur hönnuður frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1988. Hann hefur setið í fjölda dómnefnda á vegum Ímarks og FÍT og kennir um þessar mundir mörkun við Listaháskóla Íslands.

Auglýsingastofan Jónsson & Lemacks var stofnuð árið 2003 og vinnur með viðskiptavinum sínum að því að móta og staðsetja vörumerki í síbreytilegu fjölmiðlaumhverfi. Hjá stofunni starfa 40 starfsmenn sem vinna að markaðssetningu og auglýsingagerð á öllum stigum.