Stefán Þór Helgason hefur gengið til liðs við endurskoðunarfyrirtækið KPMG sem ráðgjafi.

Stefán Þór hefur verið verkefnastjóri hjá Klak Innovit nýsköpunar- og frumkvöðlasetri frá árinu 2009. Þar var hann meðal annars verkefnastjóri Gulleggins, Startup Energy Reykjavík, Startup Reykjavík, ClimateLaunchpad, Startup weekend Reykjavík og Snilldarlausna Marel.

Stefán segir í samtali við Viðskiptablaðið:

„KPMG hefur lagt mikla áherslu á að styðja við sprotafyrirtæki og eitt af mikilvægustu verkefnunum mínum verður að auðvelda sprotunum að vaxa og dafna. Eins verður spennandi að aðstoða þroskaðri fyrirtæki við að takast á við sífellt hraðari breytingar í tengslum við tækniþróun, betri nýtingu auðlinda og aukna samkeppni. Þar gegnir nýsköpun lykilhlutverki.“

Stefán hefur einnig verið sjálfstæður rannsakandi vegum Nýsköpunarsjóðs námsmanna, eftirlitsmaður á Neytendaréttarsviði Neytendastofu auk þess að sinna sérverkefni á fjármálasviði Háskóla Íslands.

Stefán útskrifaðist með BSc. í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands sumarið 2013 og stúdentspróf frá Verzlunarskóla Íslands vorið 2009.

Stefán hefur verið virkur í félagsstörfum en hann hefur m.a. verið stjórnarmaður hjá Samtökum sprotafyrirtækja frá árinu 2013. Hann var meðlimur í samráðshópi stjórnvalda vegna aðildarviðræðna við Evrópusambandið 2011-2013, varaformaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands (SHÍ) á árinum 2011 til 2012, stjórn SHÍ á árinum 2010 til 2012 og í stjórn Vöku frá 2009 til 2010.