Kristján L. Möller samgönguráðherra hefur sett Stefán Thordersen, framkvæmdastjóra öryggissviðs Keflavíkurflugvallar, í stöðu flugvallarstjóra Keflavíkurflugvallar tímabundið frá og með deginum í dag, 1. febrúar,  uns nýtt flugvallarfélag tekur til starfa. Þetta kemur fram á vef samgönguráðuneytisins.

"Umsjón með rekstri Keflavíkurflugvallar fluttist frá utanríkisráðuneyti til samgönguráðuneytis um nýliðin áramót og í undirbúningi er sameining Flugmálastjórnarinnar á Keflavíkurflugvelli og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar hf. í opinbert félag," segir á vefnum.

Þar kemur fram að Björn Ingi Knútsson, sem verið hefur flugvallarstjóri í níu ár, hafi látið af starfinu í gær.

Stefán Thordersen hóf störf hjá Flugmálastjórninni á Keflavíkurflugvelli í ársbyrjun 2001. Hann er menntaður flugvirki og lögreglumaður og sérfræðingur á sviði flugverndar og öryggis á flugvöllum. Hefur hann sinnt trúnaðarstörfum á því sviði víða um heim á vegum Alþjóðaflugmálastofnunarinnar auk starfa sinna hjá Flugmálastjórn.