Fyrr í dag var undirritaður samning um kaup Fjarskipta, móðurfélags Vodafone, á öllum eignum og rekstri 365 miðla, að undanskildum eignum er varða útgáfu Fréttablaðsins. Nú bíða aðilarnir tveir eftir samþykki Samkeppniseftirlitsins á kaupunum, en það gæti tekið mánuði að sögn Stefáns Sigurðssonar, forstjóra Vodafone.

Stefán segir í samtali við Viðskiptablaðið að honum lítist vel á þetta. „Við erum spennt og vonumst til að þetta geti gerst, við teljum þetta gott skref fyrir báða aðila. Við sjáum tækifæri í að stækka félagið og gera það öflugra og geta áhættudreift,“ segir hann.

Spurður að því hvers vegna félagið hafi ákveðið að kaupa vefmiðilinn Vísi.is, en undanskilja Fréttablaðið kaupunum, segir Stefán: „Til að byrja með þegar við vorum að skoða þetta voru þetta auðvitað bara ljósvakamiðlarnir. Þegar til kemur er Vísir.is mjög samþættur inn í ljósvakahlutann og þessa miðla. Aðilar töldu rétt að þetta væri saman. Þannig að það þróaðist þannig eftir að leið á ferlið og þetta var betur skoðað.“

Nafnið 365 verður eftir

Þegar Stefán er spurður út í hvort að breytingar verði á rekstri félagsins og þá sérstaklega út í nafnið 365 segir hann að nafnið 365 miðlar verði eftir ef kaupin ganga í gegn. „Við kaupum ekki það nafn, en við kaupum vörumerkin Stöð 2, Bylgjuna, Vísir o.s.frv. 365 nafnið verður eftir. Það verður til nýtt fjölmiðlunarsvið hjá okkur, svo höfum við smá tíma á meðan Samkeppniseftirlitið skoðar málin, til að hugsa málin og útfærslur.

„Það má reikna með því að það taki svolítinn tíma. Þetta tekur mánuði að fá niðurstöðu í það og er það eðlilegt þegar um svona stór viðskipti er að ræða,“ bætir hann við.

Engar áætlanir um stórtækar breytingar

Stefán segir jafnframt að Vodafone taki yfir starfseminni eins og hún er í dag. „Við höfum sagt að taki svona 12 til 18 mánuði í að ná fram samlegðinni, sérstaklega tæknilega eða kerfislega samlegð. Í rauninni tökum við yfir áskrifendum, réttindum og fólki og svo rekum við það með óbreyttum hætti og svo byrjum við að þróa, styrkja og styðja,“ segir hann.

„Það eru ekki neinar áætlanir um stórar breytingar á þessu í kortunum,“ bætir hann við.

Spurður nánar út í hvaða samlegðaráhrif verði með kaupunum segir Stefán: „Þessi starfsemi [365 miðlar] á ekki dreifingarkerfi eða fjarskiptakerfi sem við eigum og síðan með tímanum er hægt að ná ýmissi samlegð með stærra fyrirtæki. Við værum með yfir 500 starfsmenn, en erum með 300 í dag hjá Vodafone. Þá sér maður fyrir sér að maður nái meiri hagkvæmni í allri starfseminni,“ tekur hann fram að lokum.