*

mánudagur, 6. desember 2021
Innlent 14. október 2021 13:28

Stefanía tilnefnd sem frumkvöðull ársins

Fimm íslenskar konur eru tilnefndar til verðlauna hjá Nordic Tech Awards.

Ritstjórn
Stefanía Bjarney Ólafsdóttir flutti erindi á setningu Nýsköpunarviku
Mummi Lú

Stefanía Bjarney Ólafsdóttir hefur verið tilnefnd frumkvöðull ársins hjá Nordic Women in Tech Awards. Verðlaunin eru veitt til einstaklings sem er eigandi í fyrirtæki sem sýnt hefur framúrskarandi árangur síðustu 36 mánuði og þykir vera með skýr og raunhæf markmið. Stefanía Bjaney er framkvæmdastjóri og meðstofnandi nýsköpunarfyrirtækisins Avo, sem hefur verið á mikilli siglingu og meðal nýrra viðskiptavina eru Adobe og Fender.

„Ég lít fyrst og fremst á tilnefninguna sem viðurkenningu á öllu Avo teyminu. Þetta er allt saman “team-effort”. Að vera í þessum sleggju hópi af flottustu konum Norðurlandanna í tæknigeiranum er auðvitað mikill heiður,“ er haft eftir Stefaníu Bjarneyju í fréttatilkynningu.

„Við erum í stöðugri vöruþróun og viðskiptavinum fjölgað jafnt og þétt. Með nýjustu gagnastjórnunarlausnunum okkar hafa viðskiptavinir eins og Adobe og Fender bæst í hópinn. Það sem gerir mig alltaf stoltasta er fólkið sem ég fæ að vinna með – bæði þetta ótrúlega Avo teymi, sem og forréttindin að fá að vinna náið á hverjum degi með mögnuðum viðskiptavinum okkar sem eru vörustjórar, forritarar og gagnasérfræðingar hjá framsæknustu stafrænu vörum heims.“

Sjá einnig: Sprotar – Hraður vöxtur Avo

Verðlaunin Nordic Women in Tech Awards eru viðurkenning á störfum kvenna í tæknigeiranum á Norðurlöndunum með það að markmiði að setja kvenfyrirmyndir í sviðsljósið og draga að fleiri konur inn í nýsköpun og tækni. Þær sem eru tilnefndar þykja hafa skarað fram úr og verið sterkar fyrirmyndir. Verðlaunin eru veitt í tíu flokkum og eru fimm konur tilnefndar í hverjum þeirra.

Fleiri íslenskar konur eru tilnefndar til verðlauna. Valgerður Hrund Skúladóttir, forstjóri Sensa, er tilnefnd sem baráttukona ársins hjá Women in Tech. Freyja Þórarinsdóttir, stofnandi og forstjóri sprotafyrirtækisins GEMMAQ, er tilnefnd sem rísandi stjarna. Jessie VanderVeen, fyrrum markaðasstjóri Controlant og starfar nú sem stjórnandi í markaðsteymi AWS, er tilnefnd sem fjárfestir ársins. Þá er Raquelita Rós Aguila, forstöðumaður stafrænnar þróunar hjá Isavia, er tilnefnd sem stafrænn leiðtogi ársins.

Í áttunda sæti í netkostningu

Nú stendur yfir netkosning fyrir People’s Choice Awards hjá Nordic Women in Tech, þar sem fólki gefst tækifæri á að kjósa sinn fulltrúa til verðlauna. Stefanía Bjarney er sem stendur í áttunda sæti en auk hennar er hægt að kjósa Jessie, Valgerði Hrund, Freyju og Raquelitu Rós. Kosningin stendur yfir til 31. október en hægt er að veita atkvæði hér.

„Þetta er auðvitað frábært tækifæri til að vekja athygli á nýsköpun á Íslandi. Hér er sannarlega af nógu að taka og spennandi að eiga möguleika á að vera fulltrúi Íslands í þessari kosningu,“ segir Stefanía Bjarney.