*

mánudagur, 6. desember 2021
Fólk 3. júlí 2017 13:27

Stefano M. Stoppani nýr forstjóri Creditinfo

Stefano M. Stoppani hefur tekið við sem nýr forstjóri Creditinfo Group. Hann tekur við starfinu af Reyni Grétarssyni.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Stefano M. Stoppani hefur tekið við sem nýr forstjóri Creditinfo Group. Hann tekur við starfinu af Reyni Grétarssyni sem verður áfram starfandi stjórnarformaður félagsins, Reynir er jafnframt stærsti einstaki eigandi þess. Stefano M. Stoppani hefur 20 ára reynslu af störfum á alþjóða fjármálamarkaði. Reynir Grétarsson mun ásamt nýjum forstjóra einbeita sér að nýjum viðskiptatækifærum til að styðja við áframhaldandi stækkun félagsins á alþjóðavettvangi. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Stefano M. Stoppani starfaði áður sem framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá fyrirtækinu SIMAH í Saudi Arabíu. Þar áður vann hann hjá Indverska fyrirtækinu CRIF sem svæðisstjóri fyrirtækisins í Mexico og Mið- Ameríku, Jamaica og Dubai. Hann starfaði sem ráðgjafi til margra ára á sviði kredit- og áhættustýringar hjá International Finance Corporation (World Bank Group) í Washington.  Þá hefur Stefano reynslu af setu í stjórnum fjölmargra fyrirtækja meðal annars sem stjórnarformaður CRIF NM Credit Assure Limited. Stefano er með BA gráðu í stjórnmálafræði frá University of Bologna á Ítalíu. Hann er með MBA gráðu í viðskiptafræði frá University of Bologna og meistaragráðu í þróunar- og alþjóðamálum frá London School of Economics (LSE). 

„Ég hef þekkt Stefano í langan tíma og fylgst vel með starfsferli hans sem er virkilega glæsilegur. Hann hefur verið búsettur í 10 löndum og unnið í fjórum heimsálfum þar sem hann hefur unnið að uppbyggingu alþjóðlegra fyrirtækja. Það er mikill fengur fyrir Creditinfo að fá svona reynslumikinn stjórnenda til okkar. Félagið hefur vaxið hratt og með starfsstöðvar víða um heim, Stefano þekkir þessi markaðssvæði vel og mun leiða móður- og dótturfélög í þessum stækkunarfasa félagsins," segir Reynir Grétarsson, stjórnarformaður Creditinfo Group.

„Creditinfo er eitt af mest vaxandi fyrirtækjum á þessu sviði í dag. Félagið hefur markað sér hlutdeild á spennandi mörkuðum með því að auka aðgengi að fjárhagsupplýsingum og áhættustýringu. Ég hef ætíð dáðst að hugrekki félagsins að fóta sig á krefjandi mörkuðum, því er það mjög ánægjulegt fyrir mig að setjast í stól forstjóra þess í dag. Það eru spennandi hlutir framundan og það er mikill heiður að taka þátt í viðskiptaþróun með stjórnarformanni og alþjóðlegu teymi stjórnenda víðs vegar um heim í uppbyggingu félagsins, "segir nýr forstjóri fyrirtækisins, Stefano M. Stoppani.