Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkti í dag fjárhagsspá fyrir árin 2017 til 2022. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu. Samkvæmt áætluninni er gert ráð fyrir því að fjárhagur samsteypunnar haldi áfram að styrkjast, þrátt fyrir fjárfestingar og lækkun á gjaldskrám nú um áramótin.

Gera ráð fyrir arðgreiðslum

Samkvæmt fjárhagsspánni er gert fyrir að eigendur OR - Reykjavíkurborg, Akraneskaupstað og Borgarbyggð - fái greiddar arðgreiðslur árið 2018. Áður en til þeirra kemur þarf fjárhagur OR að standist þau arðgreiðsluskilyrði sem eigendur samþykktu árið 2015. Gert er ráð fyrir að arðgreiðslur aukist smátt og smátt eftir því sem greiðslubyrði af lánum minnkar.

Ráðist í frekari fjárfestingar

Fyrirtækið ætlar sér að ráðast í frekari fjárfestingar og endurnýjanir á komandi árum. Þar má helst nefna meginhitaveituæðar höfuðborgarsvæðisins, Vesturlands og á Suðurlandi, en einnig endurnýjun mikilvægra burðarvikja í raforkudreifingu.

OR mun einnig halda áfram að stækka net ljósleiðara til nærsveita Reykjavíkur og er stefnt að því að öll heimili á þeirra svæði geti keypt 1000 megabita flutningshraða af fjarskiptafyrirtækjum. Þéttbýli Kópavogs verður til að mynda full tengt árið 2017 og Hafnarfjörður og Garðabær fyrir árslok 2018.

Áætlunin gerir einnig ráð fyrir ríflega 20 milljarða króna kostnaði við gufuöflun fyrir Hellisheiðarvirkjun á næstu 6 árum auk 5 milljarða króna vegna niðurdælingar á vinnsluvatni frá virkjuninni. Unnið er að gerð nákvæmra forðalíkana af Hengilssvæðinu.

Lækka skuldir

Árlegar afborganir lána og vaxtagreiðslur eru áætlaðar frá 15 milljörðum til 20 milljarða króna á árunum 2017 til og með 2022. Þær fjárfestingar sem áformaðar eru verða að mestu fjármagnaðar með fé frá rekstri en að hluta með nýju lánsfé. Gert er ráð fyrir að nettóskuldir OR lækki um rúma 40 milljarða króna á árabili spárinnar, eða 32%.

Hlutfall nettóskulda og EBITDA sýnir hversu mörg ár það tæki að greiða skuldir OR að fullu væri framlegðinni eingöngu varið til þess. Hlutfallið var 18 í árslok 2009, 5,3 samkvæmt útkomuspá 2016 og 2,7 í árslok 2022, gangi þessi fjárhagsspá eftir.

Fjárhagsspá OR 2017 og langtímaspá 2018 til 2022 fara til umfjöllunar hjá Reykjavíkurborg sem hluti af fjárhagsáætlun samstæðu borgarinnar.

Allt á flug

Samkvæmt fjárhagsspánni gerir félagið ráð fyrir því að tekjur ársins 2017 nemi rúmlega 41 milljarði, en að þær nemi rúmum 54,5 milljörðum árið 2022. Hagnaður ársins 2017 verður að mati spánar tæplega 9 milljarðar, á meðan stefnan er sett á tæplega 17 milljarða króna árið 2022.

Árið 2022 er einnig gert ráð fyrir því að eigið fé verði að upphæð 186,8 milljarðar, á meðan skuldastaða félagsins verður um 139,2 milljarðar króna.