© Aðsend mynd (AÐSEND)

Áætlaður kostnaður Stractahótelkeðjunnar við byggingu tíu hótela á næstu fimm árum er 17,6 milljarðar króna. Þar með er ekki allt talið því félagið, Stracta hotel ehf., ráðgerir einnig að fjárfesta fyrir 2,9 milljarða í afþreyingu og ýmsum innviðum á þeim stöðum þar sem hótelin munu rísa. Heildarfjárfesting hótelkeðjunnar á næstu fimm árum gæti því numið allt að 20,5 milljörðum króna. Þetta kemur fram í samtali Viðskiptablaðsins við Hreiðar Hermannsson, en hann og sonur hans Hermann, fyrrverandi atvinnumaður í knattspyrnu, eru eigendur Stracta hotel ehf.

„Seðlabankinn óskaði eftir því að við skiluðum þeim fjárfestingaráætlun,“ segir Hreiðar. „Það gerðu þeir vegna þess að svona miklar framkvæmdir geta hreyft við hagkerfinu og haft áhrif á gengi krónunnar þar sem við erum að koma með töluverðan gjaldeyri inn til landsins.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér .