*

fimmtudagur, 2. desember 2021
Innlent 11. nóvember 2017 14:15

Stefna á 220 milljóna hlutafjáraukningu

Leikjafyrirtækið 1939 Games mun senn gefa út sinn fyrsta tölvuleik sem gerist í síðari heimsstyrjöldinni.

Ingvar Haraldsson
Ívar Kristjánsson, framkvæmdastjóri 1939 Games, á skrifstofu fyrirtækisins sem, þeir deila með fyrirtækjum annarra fyrrum lykilstarfsmanna CCP.
Haraldur Guðjónsson

Íslenska leikjafyrirtækið 1939 Games er langt komið með að sækja sér allt að 220 milljónir króna í aukið hlutafé. Ívar Kristjánsson, framkvæmdastjóri og annar stofnandi fyrirtækisins, segir viðræður við nokkra erlenda aðila ganga vel og vonast sé til að ganga frá hlutafjáraukningu fyrir áramótin. Einnig kunni að vera að íslenskir aðilar komi að fjárfestingunni.

Ívar, sem einnig er stjórnarformaður Nýherja, stofnaði 1939 Games ásamt bróður sínum, Guðmundi Kristjánssyni, fyrir tveimur árum. Fyrirtækið hefur gefið út Alpha prufuútgáfu af sínum fyrsta tölvuleik sem ber nafnið Kards. „Það hafa um 6.000 manns sótt um að spila leikinn og á milli 400 og 500 manns sem spila leikinn á dag þessa dagana,“ segir Ívar.

Stefnt er að því að leikurinn komi út í maí á næsta ári fyrir PC og Mac tölvur en síma- og spjaldtölvuútgáfur fylgi fljótlega í kjölfarið. „Við erum að sækja okkur fjármagn til þess að klára undirbúning útgáfu, markaðssetningu og rekstur leiksins,“ segir Ívar. 

Síðari heimsstyrjöldin leiksvið Kards

Leiksvið Kards er síðari heimsstyrjöldin þar sem leikmenn mætast í einvígjum sem taka að jafnaði 5-10 mínútur. Ívar segir Kards svokallaðan DCCG leik sem stendur fyrir Digital Collectible Card Game og má þýða sem rafrænan safnkortaspilaleik.

Guðmundur og Ívar störfuðu báðir hjá CCP um árabil. Ívar er einn stofnenda CCP og var framkvæmdastjóri fyrirtækisins þegar EVE Online kom út árið 2003. Guðmundur hætti eftir 12 ára starf hjá CCP árið 2015 eftir að hafa fengið styrk frá Tækniþróunarsjóði til að stofna 1939 Games. Fyrirtækið lauk 23 milljóna króna hlutafjárútboði svokallaðra englafjárfesta í haust. Þá hlaut fyrirtækið 50 milljóna króna við­ bótarstyrk frá Tækniþróunarsjóði í vor.

„Fyrirtækið hefur verið vel fjármagnað frá upphafi með að­ komu englafjárfesta,“ segir Ívar sem segir þá einnig afar þakkláta Tækniþróunarsjóði fyrir þá styrki sem þeir hafi veitt. „Það má klárlega hlúa betur að sprotafyrirtækjum hér á landi en það ber að hampa því sem vel er gert og Tækniþróunarsjóður er klárlega mikil lyftistöng fyrir marga sprota,“ segir Ívar.

Samfélagsmiðlar breytt miklu

Ívar segir að aukið vægi samfélagsmiðla hafi gjörbreytt möguleikum til markaðssetningar. Aðilar sem standi að Youtube-rásinni PhlyDaily hafi haft samband og óskað eftir að fá að gera kynningarmyndband um Kards. „Myndbandið fékk strax gott áhorf og á fyrsta degi fengum við yfir 2.000 umsóknir um að nota Alpha prufuútgáfu af leiknum,” segir Ívar.

Deila skrifstofu með öðrum afsprengjum CCP

1939 Games deilir skrifstofuhúsnæði á Laugaveginum með leikjafyrirtækjunum Sólfar Studios og Directive Games sem einnig voru stofnuð af fyrrverandi lykilstarfsmönnum CCP. Ívar bendir á að Reynir Harðarson, einn af stofnendum Solfar Studios og CCP, sé stjórnarformaður 1939 Games og Matthías Guðmundsson, einn af stofnendum Directive­  Games og fyrrum lykilmaður hjá CCP, sitji einnig í stjórn 1939 Games. „Það er heilmikið þekkingarflæði á milli fyrirtækjanna og menn geta varpað hugmyndum sín á milli. Við höfum einnig verið að skiptast á starfsfólki. Þannig að við höfum getað fengið einhvern lánaðan úr Sólfari í þrjá mánuði og þar fram eftir götunum,“ segir Ívar.

Fjallað er um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.