Robinhood, smáforrit fyrir viðskipti hlutabréfa án þóknanna, stefnir á allt að 35 milljarða dala markaðsvirði í kjölfar frumútboðs fyrirtækisins. CNBC greinir frá.

Stefnt er að því að selja 55 milljón hluti í félaginu á verðbilinu 38 til 42 dali á hvern hlut. Seljist allir hlutirnir sækir fyrirtækið á bilinu 2,1  til 2,3 milljarða dala. Síðasta verðmat fyrirtækisins, í september á síðasta ári, mat fyrirtækið á 11,7 milljarða dali.

Reiknað er með að tekjur fyrirtækisins á öðrum fjórðungi ársins verði á bilinu 546  til 574 milljónir dala sem er 130% hækkun frá sama fjórðungi síðasta árs. Þrátt fyrir það er gert fyrir 537 til 487 milljóna dala tapi á fjórðungnum samanborið við hagnað árið áður.

Sjá einnig: Líkir Robinhood við spilavíti

Um 22,5 milljónir notenda forritsins eru með bankareikning tengdan við forritið. Fyrirtækið hefur vaxið mikið í faraldrinum og ekki síst vegna svokallaðra „jarmbréfa“ (e. meme stocks) sem notið hafa nokkura vinsælda meðal spákaupmanna frá því í byrjun árs. Meðal jarmbréfa má einna helst nefna Game Stop og kvikmyndahúsakeðjuna AMC.