Straumur fjárfestingabanki ætlar að sækja um fimm hundruð milljónir króna í nýtt hlutafé í þessum mánuði. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu .

Þar er greint frá því að hlutafjárútboðið hafi hafist á fimmtudaginn í síðustu viku. Jakob Ásmundsson, forstjóri Straums, segir í samtali við Morgunblaðið að það muni standa yfir til 20. desember næstkomandi og nú þegar sé búið að ganga frá skuldbindandi hlutafjárloforðum fyrir talsverðar fjárhæðir.

Á hluthafafundi þann 14. nóvember sl. samþykkti stjórn Straums heimild til að hækka hlutafé um allt að milljarð króna að nafnvirði. Jakob segir að stefnt sé að því að auka hlutafé bankans um 400 til 500 milljónir króna í þessari fyrstu lotu og ekki sé útilokað að hlutafé Straums verði aukið enn frekar á grundvelli þeirrar heimildar sem stjórn félagsins hefur samþykkt, en hún fellur niður í árslok 2015.