Sjöfn Sigurgísladóttir, framkvæmdastjóri SagaNatura, segir að fyrirtækið hafi stækkað hratt allt frá því að það varð til við eftir samruna SagaMedica og KeyNatura síðasta sumar.

„Við fengum 180 milljóna króna fjármögnun frá fjárfestunum okkar til þess að styðja við þessa stækkun, auk þess sem styrkurinn frá ESB kemur til með að styðja verulega við starfsemi okkar. Við erum byrjuð að undirbúa það að rækta hvönnina sjálf, til þess að gera okkur kleift að skala hratt upp, en í dag fáum við hvönnina okkar úr Hrísey. Hvönnin er jurt sem er auðvelt að rækta og vex í miklu magni á Íslandi."

Meirihluti tekna SagaNatura kemur frá útlöndum og eru vörur fyrirtækisins meðal annars seldar á mörkuðum í Asíu, Evrópu og Norður-Ameríku. Sjöfn segir fyrirtækið stefna að því að velta þess fari yfir hálfan milljarð króna á þessu ári.

„Við höfum verið að flytja vörur og hráefni út til Kína í tvö ár og salan þangað er sífellt að aukast. Ég tel að sá markaður eigi eftir að vera stærsti markaðurinn okkar í framtíðinni. Í dag er mesta salan til Bandaríkjanna en við erum einnig að selja til Svíþjóðar, Bretlands, Frakklands, Þýskalands, Suður-Kóreu og Nýja-Sjálands. Því lengra sem við komumst inn í virðiskeðjuna því meiri virðisaukningu öðlumst við. Salan okkar erlendis er þegar orðin meiri en á heimamarkaðnum hjá okkur."

Að sögn Sjafnar stefnir fyrirtækið á frekari sókn á erlenda markaði, en hún bendir jafnframt á mikilvægi þess að finna réttan samstarfsaðila.

„Þetta snýst fyrst og fremst um að finna öflugan samstarfsaðila. Í Þýskalandi erum við til dæmis inni á netverslun þar sem fyrirtæki selur afurð okkar undir sínu eigin merki. Þeir eru að selja blöndu sem við þróuðum og þannig náum við virðisaukningu. Við erum með marga aðila út af örkinni að vinna fyrir okkur, annars vegar aðilar sem leita að sölum fyrir okkur og hins vegar fyrirtæki sem selja vörurnar okkar. Það er því verið að fara nokkrar leiðir. KeyNatura er ungt fyrirtæki og SagaMedica var að mestu leyti að selja inn á íslenska markaðinn. Því er þetta ansi stórt stökk fyrir fyrirtækin sem nú eru orðin að einu."

Næsta skref stórt

Sjöfn telur að framtíð SagaNatura sé björt og að fyrirtækið muni halda áfram að stækka hratt.

„Við stefnum að því að verða mjög stór í þörungaræktuninni og áttfalda framleiðsluna sem við erum með í dag. Á sama tíma einblínum við á lokavörur og verðum með ákveðnar lykilvörur, eins og SagaPro. Stefnt er að því að veltan verði orðin nokkrir milljarðar innan nokkurra ára og við sjáum fyrir okkur að salan muni aukast jafnt og þétt. Áhersla okkar mun alltaf vera að framleiða heilsuvörur sem byggja á íslenskri náttúru og þörungum, og fara eins langt inn í virðiskeðjuna og mögulegt er. Við erum að skoða það núna hvernig við munum taka næsta skref, því næsta skref verður nokkuð stórt."

Nánar er rætt við Sjöfn í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .