*

föstudagur, 28. janúar 2022
Innlent 28. nóvember 2021 18:02

Stefna á 75 þúsund notendur

1819 hefur sett í loftið nýtt app, 1819 Torgið, sem gerir notendum á bæði einstaklings- og fyrirtækjamarkaði kleift að gera góð kaup.

Ritstjórn
Ágústa og Franz segja vel ganga að innleiða notendur í nýja appið.
Aðsend mynd

1819 setti nýverið í loftið nýtt app sem kallast 1819 Torgið þar sem fyrirtæki geta boðið afslátt af vörum og þjónustum, bæði til einstaklinga og annarra fyrirtækja. Franz Gunnarsson, sviðsstjóri 1819 Torgsins, og Ágústa Finnbogadóttir, framkvæmdastjóri 1819, segja þar bæði að finna almenna afslætti en einnig sérkjör fyrir starfsmenn fyrirtækjanna í Torginu eða ákveðna hópa á borð við einstaklinga innan starfsmannafélaga eða félagasamtaka.

„Í appinu eru um 200 vöruflokkar sem dekka í raun og veru allt sem að snýr að heimilislífinu, félagslífinu, heilsu, húsnæði, farartækinu, bústaðnum og áfram mætti telja, þannig að þetta er mjög víðtækt. Þarna eru allar gerðir af afsláttum, 2 fyrir 1, prósentuafsláttur og sérkjör fyrir tiltekna hópa auk þess sem hægt er að setja inn kynningar," segja þau og bæta við að appinu hafi verið vel tekið frá því að það fór í loftið fyrir um það bil mánuði.

„Notendur telja þegar nokkur þúsund og fjöldinn vex hratt dag frá degi. Við hófum markaðssetningu okkar í síðustu viku þannig að þetta er rosalega góður árangur á fyrstu dögum. Á næstu þremur árum er markmiðið að vera komin með 75 þúsund notendur. Bæði eru að koma inn almennir notendur auk þess sem við erum að innleiða starfsfólk fyrirtækja og meðlimi félagasamtaka sem hafa sín lokuðu svæði. Þar má til dæmis nefna stéttafélagið VR sem við sömdum nýverið við. Þau hafa verið að safna afsláttum fyrir félagsmenn í gegnum tíðina sem hafa verið aðgengilegir í gegnum heimasíðu en þeir eru nú allir komnir inn í appið á þeirra lokaða svæði."

Sérkjör starfsmanna samstarfsfyrirtækja

„Við höfum gert samninga við yfir 30 fyrirtæki sem eru lykilfyrirtæki 1819 Torgsins en í því felst meðal annars að þau veita fasta og góða afslætti til langs tíma sem starfsmenn fyrirtækjanna sem koma inn á 1819 Torgið hafa sérstakan aðgang að og geta gengið að vísum. Þannig veita fyrirtæki sem koma inn starfsfólki sínu vissa kjarabót með samstarfinu. Lykilfyrirtækin bjóða vörur og þjónustu sem almennt nýtast öllum, til dæmis á sviði heilsu, matvæla, afþreyingar, bíla, húsnæðis og viðhalds. Við erum enn að bæta í þennan lykilfyrirtækjahóp þannig að kjarabótin verður alltaf betri og betri."

Þau segja fyrirtæki sem koma inn í appið, önnur en lykilfyrirtækin, jafnframt vera valin gaumgæfilega.

„Við höfum verið að bjóða stjórnendum spennandi fyrirtækja á hádegisverðarkynningu sem við höldum vikulega, hvort sem við nálgumst þau eða þau okkur. Í kjölfarið greinum við samstarfsmöguleikana og þegar fyrirtækin koma inn tekur innleiðingarferli við þar sem við höldum vel utan um stjórnendurna, kennum þeim á kerfið og starfsfólki þeirra á appið, og erum svo í virku samstarfi með þeim út samstarfstímann."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér