*

miðvikudagur, 20. október 2021
Innlent 14. júní 2021 15:25

Stefna á 23% lægri kostnað en Icelandair

Play stefnir á að vera með lægsta rekstrarkostnaðinn í Atlantshafsflugi. Flugáhafnir fljúga 17-26% fleiri tíma en hjá Icelandair.

Ingvar Haraldsson

Play hefur sett stefnuna á að vera með lægsta rekstrarkostnað allra flugfélag sem fljúga áætlunarflug yfir Atlantshafið,  þar með talið samkeppnisaðilans Icelandair að því er fram kemur í fjárfestakynningu félagsins í aðdraganda útboðs þess.

Play segir í fjárfestakynningunni að félagið sé nýtt og með hreint borð og ekki bundið af gömlum skuldbindingum. Þá hafi félagið geta leigt sparneytnar flugvélar á hagstæðum kjörum vegna heimsfaraldursins. Auk þess muni flugáhafnir félagsins fljúga nokkuð fleiri flugtíma en samkeppnisaðilarnir.

Sjá einnig: Reikna með fimm milljarða hagnaði árið 2025

Play stefnir á að kostnaður á hvern framboðinn sætiskílómetra (CASK) án eldsneytis verði um 3,6 sent árið 2023 en til samanburðar hefur Icelandair stefnt á kostnað upp á 4,7 sent á sætiskílómetra án eldsneytis sama ár. Því stefnir Play á að vera með um 23% lægri rekstrarkostnað en Icelandair á sætiskílómetra. Kostnaðurinn verði lægra en annarra flugfélaga sem bjóða áætlunarflug yfir Atlantshafið. Play verður þó með hærri rekstrarkostnað en lággjaldaflugfélög á borð við easyJet, Norwegian, Wizz Air og Ryanair líkt og sjá má á myndinni hér að neðan.

Play stefnir á tekjur upp á 5,1 sent á sætiskílómetra (RASK) árið 2023 en Icelandair gerir ráð fyrir hærri tekjum því þar gera áætlanir ráð fyrir RASK upp á 6,4 sent á sætiskílómetra. Því má gera ráð fyrir að Play hyggist stefni á að bjóða upp á nokkuð lægri fargjöld en Icelandair.

Úr fjárfestakynningu Play.

Flugáhafnir Play fljúga fleiri tíma en hjá Icelandair

Flugáhafnir munu fljúga fleiri flugtíma en samkeppnisaðilar á borð við Icelandair samkvæmt fjárfestakynningunni. Þar kemur fram að gert sé ráð fyrir að flugmenn, flugfreyjur og flugþjóna félagsins muni fljúga um 805 flugtíma á ári í um 95 flugferðum. 

Þá kemur einnig fram að flugtímar flugmanna hjá Icelandair verði um 640 í 76 flugum og flugtímar flugfreyja og flugþjóna Icelandair um 688 í 82 flugum samkvæmt nýjum kjarasamningum sem Icelandair gerði á síðasta ári. Út frá því má áætla að flugáhafnir Play fljúgi 17-26% fleiri flugtíma en kollegar þeirra hjá Icelandair. 

Til samanburðar sé meðaltalið hjá lágjaldaflugfélögum í Evrópu um 750 flugtímar en í fleiri flugferðum. Betri nýting fáist á áhafnir hjá Play en hjá dæmigerðum lággjaldaflugfélögum í Evrópu þar sem flugferðir til og frá Íslandi séu alla jafnaði um 3.000 kílómetrar en um 1.000-1.500 en hjá lággjaldaflugfélögum innan Evrópu.

Sjá einnig: Selja 4 milljarða hlut í Play

Í kynningunni kemur fram að Play hafi gert kjarasamninga í september 2019 sem renna út í febrúar 2025 en samið var við Íslenska flugstéttafélagið sem var áður stéttarfélag flugmanna Wow air. Tryggð laun flugfreyja og flugþjóna hjá Play verði 352 til 454 þúsund krónur á mánuði óháð vinnuframlagi. Áætlað er að þau fái um 470 til 678 þúsund krónur greidd í laun fyrir skatta og um 372 til 521 þúsund eftir skatta í dæmigerðum mánuði með 67 flugtímum.

Félagið hafi skapað sér töluvert kostnaðarhagræði með þáttum á borð við betri nýtingu áhafna, að flugfólk sé ekki sótt til Reykjavíkur heldur hefjist vinnudagurinn í á Keflavíkurflugvelli og að laun séu greidd samkvæmt ábyrgð og vinnutíma en ekki þáttum á borð við starfsaldri. Þá séu stöðuhækkanir einnig byggðar á frammistöðu en ekki starfsaldri. Ekki séu margir launaflokkur innan sama starfs og frídagar séu í samræmi við það sem gengur og gerist á almennum vinnumarkaði. Nýráðnar áhafnarmeðlimir fái 24-30 orlofsdaga en þeir voru 36-38 hjá Wow air. 

Stikkorð: Icelandair flug flugmenn flugfreyjur flugþjónar Fly Play