Marinó Örn Tryggvason, forstjóri Kviku banka, ræðir viðskiptalíkan félagsins í nýjasta tölublaði Frjálsrar verslunar. Marinó segir þar mikilvægt að greina eigin veikleika með það að markmiði að reyna að bæta úr þeim. Það geri félagið markvisst.

„Hér áður fyrr gerðist það oft að viðskiptavinir Kviku uxu upp úr bankanum. Við vorum með það lítið lánasafn að það var okkur mjög erfitt að veita mikið stærri fyrirgreiðslu til hvers og eins en um 1 til 1,5 milljarða, en oft varð þörfin meiri en það. Í slíkum tilfellum þurftu aðilar einfaldlega að leita annað, vegna stærðar okkar," segir Marinó en bendir á að sú sé ekki lengur staðan.

„Eftir samrunann við TM getum við veitt mun stærri fyrirgreiðslur, sem stækkar markhóp okkar verulega. Í dag getum við veitt allavega tvöfalt hærri fyrirgreiðslur en áður, eða fleiri fyrirgreiðslur upp undir einn milljarð eða þar um bil. Það gerir það að verkum að möguleikar okkar til að keppa á þessu sviði hafa vaxið."

Áður hafi flöskuháls Kviku legið í lausafjárfjármögnun félagsins, en það eigi ekki lengur við í dag.

„Ef við rýnum í takmarkandi þætti í starfseminni í dag, þá væri til að mynda betra að vera með meiri langtímafjármögnun. Það hefur verið veikleiki í íslenska bankakerfinu hve stutt fjármögnunin er. Ég er að vísu mjög ánægður með skuldabréfaútgáfu okkar í maí sem var til 6 ára, lengstu skuldabréfin sem gefin hafa verið út af banka í krónum frá hruni, en þau eru hluti af þessari vegferð."

Þá sé félagið með takmarkaða erlenda fjármögnun, sem almennt hefur verið lengri en innlend fjármögnun.

„Aukin erlend fjármögnun getur þannig hjálpað mjög mikið til við að laga þennan flöskuháls. Við erum því núna að leggja áherslu á að sækja erlent fjármagn, en samruni Kviku og TM mun styðja við þá vegferð þar sem stærðin skiptir máli. Við stefnum að því að fá „rating" á félagið hjá einhverju af erlendu matsfyrirtækjunum og ég hef væntingar til þess að það klárist öðru hvoru megin við áramótin."

Nánar er rætt við Marinó í tímariti Frjálsrar verslunar sem var að koma út. Hægt er að gerast áskrifandi hér eða kaupa blaðið hér .