Netverslun er á hraðri uppleið alls staðar í heiminum enda gríðarlegur vaxtarbroddurí netviðskiptum almennt að sögn Gunnars Inga Björnssonar, framkvæmdastjóra Heimkaupa.

„Við sáum mikið gat á þessum markaði á Íslandi og þörf fyrir einn aðila sem seldi úr mörgum vöruflokkum og byði upp á gott þjónustustig. Þannig kviknaði hugmyndin að þessu,“ segir Gunnar Ingi og bætir því við að undirbúningur að stofnun fyrirtækisins hafi átt sér töluverðan aðdraganda. „Það var byrjað að skoða þetta snemma árs 2012 og haustið það ár hófst forritunarvinnan sem er stór þáttur í þessu. Heimkaup opnuðu síðan í mars á síðasta ári og við verðum því bráðlega eins árs.“

Gunnar Ingi segir að viðtökurnar hafi verið frábærar. „Við erum virkilega ánægð með þetta fyrsta ár hjá okkur. Veltan og pantanafjöldinn hefur farið vaxandi með hverjum mánuðinum. Í fyrra versluðu 13 þúsund  Íslendingar við Heimkaup og við fengum meira en 20 þúsund pantanir af þeim voru 5.500 pantanir í desember. Veltan í fyrra nam 200 milljónum króna og við stefnum að því að hún verði hálfur milljarður á þessu ári. Þegar við byrjuðum vorum við með ríflega 2 þúsund vörur en í dag eru þær orðnar um 9 þúsund.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast tölublaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð .