Staða Íslandsbanka hefur styrkst frá áramótum. Eignir bankans eru nú 931 milljarður, borið saman við 866 milljarða í byrjun ársins. Þetta kemur fram í árshlutauppgjöri bankans fyrir þriðja ársfjórðung 2014. Bankinn hagnaðist um 18,2 milljarða á tímabilinu. Hagnaðurinn er öllu meiri en í fyrra, þegar hann var 15,4 milljarðar á fyrstu níu mánuðum ársins.

Á uppgjörsfundi í Íslandsbanka sem fór fram í dag kom fram að útlán til viðskiptavina hafa aukist um 9,7% frá áramótum, úr 554,7 milljörðum króna í 608,3 milljarða. Eiginfjárhlutfall bankans er hér um bil það sama á fyrstu níu mánuðum 2014 og það var á sama tímabili í fyrra, 29,4% borið saman við 29,3%.

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, segir þessa þróun vera til marks um að bankinn sé að sækja í sig veðrið. Lán til fyrstu íbúðakaupa hafi mælst mjög vel fyrir hjá viðskiptavinum og aukin hagkvæmni vegna aukinna umsvifa í netbanka og farsímum skili sér í lækkandi rekstrarkostnaði.

Hafa náð góðum árangri

Birna segir jafnframt að markvissar aðgerðir í átt að lækkuðum rekstrarkostnaði og aukinni hagkvæmni skili sér í uppgjörum bankans. Af árshlutauppgjörinu má ráða að nokkrum árangri hefur verið náð í þeim efnum, þó að ávinningurinn af bættum rekstri dugi ekki til að mæta auknum útgjöldum vegna bankaskatts.

Rekstrarkostnaður að frátöldum bankaskatti og iðgjaldi í tryggingasjóð innistæðueigenda á fyrstu 9 mánuðum þessa árs eru þannig 16,5 milljarðar borið saman við 17,6 milljarða á sama tímabili árið 2013.

Að bankaskattinum og iðgjaldinu meðtöldu hækkar rekstrarkostnaðurinn hinsvegar á milli ára, úr 18,6 milljörðum í 19,2 milljarða, en hann var 208 milljónir í fyrra en er kominn í 1,9 milljarða í ár.

Útibú gætu lokað

Birna segir aukna hagkvæmni í rekstri bankans vera langtímaverkefni og að ekki sé hægt að ana út í breytingar í þeim efnum. Á seinustu árum hafi verið horft sérstaklega á fjölda útibúa og hefur nokkrum slíkum verið lokað eða þau sameinuð. Mikilvægt sé þó að tryggja að ánægja starfsmanna sé mikil, en hún segir mælingar innan bankans sýna að starfsfólk Íslandsbanka sé almennt mjög ánægt.

Aðspurð segir hún ekki útilokað að fleiri slíkar aðgerðir komi til, þó að ekkert liggi fyrir að svo stöddu. Ekki sé hægt að útiloka neitt sem bæti rekstur bankans. Ekki megi þó gleyma því að útibú og mannleg samskipti við viðskiptavini séu mikilvægur hluti af þeirri þjónustu sem bankinn bjóði. Dæmin sanni að erfitt geti verið að reka banka sem geti ekki boðið upp á samskipti við ráðgjafa.

Líklegt þykir að hjá Arion banka og Landsbankanum sé horft á sambærilegar aðgerðir en Landsbankinn hefur til að mynda ráðið til sín ráðgjafahóp frá McKinsey til að leggja til tækifæri til hagræðingar í rekstri bankans.