*

fimmtudagur, 4. júní 2020
Innlent 9. nóvember 2019 19:01

Stefna að auknu kynjajafnvægi

Jafnvægisvogin 2019 fór fram á dögunum. Markmiðið að auka jafnvægi kynja í framkvæmdastjórnum fyrirtækja í viðskiptalífinu.

Sveinn Ólafur Melsted
Hildur Árnadóttir hjá FKA er ein þeirra sem heldur utan um Jafnvægisvogina.
Gígja Einars

Jafnvægisvogin 2019, ráðstefna um jafnrétti í atvinnulífinu og viðurkenningarathöfn, fór fram síðastliðinn þriðjudag. Var ráðstefnan haldin á vegum Jafnvægisvogar FKA, ásamt samstarfsaðilum úr forsætisráðuneytinu, velferðarráðuneytinu, Sjóvá, Deloitte, Morgunblaðinu og Pipar/TBWA.

Hildur Árnadóttir, sem heldur utan um Jafnvægisvogina ásamt fleirum innan FKA, segir að vogin sé hreyfiaflsverkefni með það að markmiði að ýta við fyrirtækjum, stofnunum og einstaklingum, og vekja samfélagið til umhugsunar um virði fjölbreytileika og jafnvægis.

„Markmiðið er að auka jafnvægi kynja í framkvæmdastjórnum fyrirtækja í íslensku viðskiptalífi. Stóra markmiðið er að árið 2027 verði kynjahlutfallið 40/60 í framkvæmdastjórnum fyrirtækja á Íslandi. Til þess að ná þessu fram þarf að virkja íslenskt viðskiptalíf til að verða fyrirmynd jafnréttis fyrir aðrar þjóðir. Á þessum ráðstefnum veitum við viðurkenningar og drögum fram í sviðsljósið fyrirtæki sem hafa náð þessu markmiði. Nýliðin ráðstefna var önnur ráðstefna Jafnvægisvogarinnar, en fyrsta slíka ráðstefnan var haldin í fyrra. Á henni voru fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög hvött til þess að taka þátt í þessu verkefni. Auk þess höfum við haldið tvo fræðslufundi sem gengu út á að hvetja fyrirtækin sem taka þátt í Jafnvægisvoginni til dáða, meðal annars með því að afhenda þeim fræðsluefni sem þau geta notað innanhúss.

Inni á vef FKA er haldið uppi mælaborði, þar sem m.a. er hægt að sjá stöðu kvenna innan framkvæmdastjórna og stjórna svart á hvítu. Mælaborðið styðst við opinber gögn frá Hagstofunni. Þar er einnig hægt að nálgast ýmsar fleiri upplýsingar um stöðu kvenna í atvinnulífinu, það er ekki bara sýnd staðan innan fyrirtækjanna heldur einnig innan stofnana og sveitarfélaga.

Við fengum einvalið lið fyrirlesara til að halda erindi á ráðstefnunni og forsetafrúin Eliza Reid hélt m.a. ávarp og veitti viðurkenningar. Hún hefur sjálf sagt frá því að jafnrétti sé henni hjartans mál og við hjá FKA erum mjög þakklátar fyrir hennar þátttöku í verkefninu."

Gerist ekki að sjálfu sér

Hildur bendir á að jafnrétti kynjanna náist ekki fram að sjálfu sér.

„Fólk hélt að lagasetning um kynjahlutföll í stjórnum stærri fyrirtækja og stofnana yrði nóg, en svo reyndist ekki. Jafnrétti er einn partur af því að ná árangri í þeim verkefnum og áskorunum sem við stöndum frammi fyrir, hvort sem um er að ræða í rekstri fyrirtækja, loftslagsmálum eða sjálfbærni samfélagsins. Í alþjóðlegum samanburði er Ísland leiðandi þegar kemur að jafnrétti kynjanna, en þrátt fyrir það eigum við enn talsvert langt í land til þess að ná fullu jafnrétti í atvinnulífinu. Rannsóknir sýna að fjölbreyttur mannauður, þar sem saman er kominn hópur fólks með ólíkan bakgrunn, hefur jákvæð áhrif á afkomu fyrirtækja, starfsánægju, frammistöðu í starfi og stuðlar að aukinni verðmæta- og nýsköpun.

Áhrifafólk erlendis, eins og t.d. Richard Branson, er sífellt að leggja meiri áherslu á jafnrétti og segir Branson að samfélög þurfi á fleiri konum í forystu að halda. Þá hefur Melinda Gates ákveðið að setja einn milljarð Bandaríkjadala á næstu tíu árum í verkefni sem eiga að styðja við og auka áhrif kvenna í Bandaríkjunum. Hún telur að jafnréttismál fái ekki nægan forgang og fjármuni þar í landi."

Hildur segir að erfitt sé að koma með einhlíta skýringu á þessum kynjahalla innan framkvæmdastjórna.

„Stjórnir þurfa fyrst og fremst að vera meðvitaðar um að jafna kynjahallann í fyrirtækjum. Þegar horft er til kynjahlutfalls millistjórnenda, er staðan mun betri heldur en í framkvæmdastjórnum. Í dag erum við með nokkuð einsleitan hóp í framkvæmdastjórnum, bæði hvað varðar kyn og aldur. Ég tel að næsta kynslóð líti þetta allt öðrum augum heldur en eldri kynslóðir. Hennar sjónarmið eru opnari en hjá þeim eldri. Ég hef því trú á að við munum ná þessum breytingum fram, en það mun þó taka tíma. Hér á Íslandi höfum við allt til alls til að vera í fararbroddi hvað jafnréttismál varðar á heimsvísu."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér