*

miðvikudagur, 21. október 2020
Innlent 12. júní 2020 08:18

Stefna á að klára Edition í lok árs

Íslenskir fjárfestar lögðu 1,1 milljarð króna á síðasta ári í félagið sem byggir Edition hótelið í Reykjavík.

Ritstjórn
Við framkvæmdir á Edition-Marriott hótelinu sem rís við Austurbakka.
Haraldur Guðjónsson

Stefnt er að því að ljúka framkvæmdum á Marriott-Edition hótelinu við Austurbakka í lok árs en tafir hafi verið á byggingarhlutum sem framleiddir eru í Evrópu. Þetta segir Sveinn Björnsson, framkvæmdastjóri Íslenskra fasteigna. Fjárfestar hafa ekki þurft að leggja út meira fjármagn vegna ástandsins, að sögn Sveins. Búið er að ráða hótelstjóra og fjármálastjóra hótelsins. 

Eignarhlutur íslenskra fjárfesta sem koma að hótelinu er vistaður í félaginu Mandólín ehf. Í ársreikningi félagsins fyrir árið 2019 kemur fram að bókfært verð þess í Cambridge Plaza Hotel Company ehf., sem sér um að byggja og reka hótelið, hafi hækkað um 1,14 milljarða króna á síðasta ári í 3,55 milljarða króna. Útistandandi áskriftarloforð félagsins nema um 1,5 milljarða króna.

Eignarhlutur Mandólín í verkefninu hækkaði úr 65,6% í 70,5% í ár. Í síðasta sumar greindi Fréttablaðið frá því að Eggert Dagbjartsson og bandaríska fasteignaþróunarfélagið Carpenter & Company eiga tæplega 30% á móti Mandólín. 

SÍA III, framtakssjóður í rekstri Stefnis, á 49,9% hlut í Mandólín. Félögin Stormtré ehf., í eigu Hreggviðs Jónssonar, og Snæból ehf., í eigu hjónanna Steinunnar Jónsdóttur og Finns Reyrs Stefánssonar, eiga sitthvorn 12,49% hlut. Vitinn Reykjavík ehf., sem er meðal annars í eigu Gríms Garðarssonar, á 9,4%. Almenni lífeyrissjóðurinn á 6,2% og Festa lífeyrissjóður 5,4% í Mandólín. Feier ehf., í eigu hjónanna Hjördísar Ásberg og Hjörleifs Þórs Jakobssonar, á einnig 4,06%.