„Eins og fram kom þegar norrænu fjárfestarnir komu að, þá er það markmið, bæði þeirra og Framtakssjóðsins, að félagið endi sem skráð félag og þá helst tvískráð, hér heima og í Kauphöllinni í Stokkhólmi,“ segir Gestur G. Gestsson, forstjóri Advania, í samtali við Fréttablaðið .

Þar er greint frá því að eigendur fyrirtæksins stefni að því að skrá félagið á markað við sex mánaða uppgjör sem yrði í október næstkomandi. Er það nokkru fyrr en áætlanir gerðu ráð fyrir, en síðastliðið haust var gert fyrir skráningu á næstu tveimur til fimm árum .

Gestur segir hins vegar í samtali við Fréttablaðið að tímasetningin hafi ekki verið nákvæmlega sett ennþá, en góð skref hafi verið stigin í uppsetningu á rekstri félagsins til þess að hægt sé að huga að skráningunni.