Stjórnvöld Grænhöfðaeyja hafa boðað þjóðnýtingu á Cabo Verde Airlines (CVA) sem íslenskir fjárfestar eignuðust í byrjun árs 2019 af ríkisstjórn Grænhöfðaeyja. Barron's greinir frá.

Forsætisráðherra Grænhöfðaeyja, Ullisses Correia e Silva, sagði í viðtali að í bígerð væri ferli til að eignast aftur meirihluta í félaginu. Nú eiga íslenskir fjárfestar 51% hlut í félaginu, þar af á Icelandair 36% hlut, ríki Grænhöfðaeyja á 39% hlut og starfsfólk félagsins á 10% hlut.

Hann sagði jafnframt að íslensku fjárfestarnir hefðu ekki sýnt fram á getu til þess að tryggja sjálfbærni félagsins. Þá væri það í hag þjóðar Grænhöfðaeyja að þjóðnýta flugfélagið á nýjan leik.

Ferðaþjónusta er burðarstólpi efnahags Grænhöfðaeyja og býr þar um hálf milljón manns. Um 300 manns vinna hjá félaginu en floti CVA  hefur verið í geymslu frá því í mars á síðasta ári , og því var lítið um alþjóðlegt flug til og frá eyjunum á þeim tíma.