Miklar sveiflur hafa verið á hlutabréfamörkuðum víða um heim, að stórum hluta vegna stríðsástandsins. Það sama á við um íslenska markaðinn en Úrvalsvísitalan lækkað um 12% í ár. Fjögur félög fóru á markað í fyrra og nokkur félög hafa lýst yfir áhuga á skráningu á næstu misserum.

Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar, segir að félagið vinni áfram að krafti að því að undirbúa skráningu. Fyrirtækið hafi horft til þess að fara á markað í maí eða um það leyti.

„Ef markaðsaðstæður eru metnar góðar á þeim tímapunkti höldum við okkar striki, annars bíðum við,“ segir Andri Þór og bætir við að reksturinn gangi áfram vel þrátt fyrir áskoranir tengdar hækkunum á hrávöruverði.

Í lok síðasta árs var Gréta María Grétarsdóttir ráðin forstjóri Arctic Adventures og á sama tíma lýsti ferðaþjónustufyrirtækið yfir áhuga á að fara á markað. Spurð hvort núverandi markaðsaðstæður hafi áhrif á skráningaráformin þá segir Gréta María að félagið sé að horfa til þess að fara á markað á næsta ári. Markmiðið sé að ná fyrst heilu rekstrarári þar sem áhrifa Covid-faraldursins gætir ekki í jafnmiklum mæli. Núverandi aðstæður séu því ekki til umræðu á þessum tímapunkti varðandi skráningu.

Fyrir rúmu ári síðan keyptu lífeyrissjóðirnir Festa og Birta 14,4% hlut í Samkaupum, móðurfélagi Nettó, og vildu í kjölfarið að félagið yrði skráð á First North-markaðinn. Í samtali við Viðskiptablaðið gefur Ómar Valdimarsson, fráfarandi forstjóri Samkaupa, til kynna að núverandi markaðsaðstæður hefðu ekki haft áhrif á skráningaráform félagsins þar sem ástandið væri tiltölulega nýtilkomið og því erfitt að meta hvaða áhrif það hefði til lengri tíma.

Fyrir viku var tilkynnt um að Gunnar Egill Sigurðsson myndi taka við af Ómari sem forstjóri Samkaupa um næstu mánaðamót. Blaðamaður nýtti tækifærið og spurði Ómar hvers vegna hann væri að láta af störfum hjá Samkaupum eftir 26 ár í starfi, þar af síðustu 13 árin sem forstjóri.

„Ég hef verið hér í langan tíma. Það er ágætt að þekkja sinn vitjunartíma og gott að gefa ungu fólki tækifæri. Ég tel að þeir sem hafa verið lengi í svona stöðu eigi að vera óhræddir að hleypa ungu fólki að,“ segir Ómar. Hann bætti við að næstu skref sín væru óráðin. „Þetta er búið að vera langt úthald og nú er ágætt að kasta mæðinni.“

Ítarlega er fjallað um margvísleg áhrif stríðsins á íslenskt efnahagslíf í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .