*

fimmtudagur, 17. júní 2021
Erlent 23. mars 2021 07:00

Stefna á allt að 9 milljarða markaðsvirði

Deliveroo áætlar að markaðsvirði félagsins verði allt að 8,8 milljarðar punda í kjölfar skráningar. Novator getur hagnast vel.

Ritstjórn
epa

Breska heimsendingarþjónustan Deliveroo stefnir á að markaðsvirði félagsins verði um 7,6 til 8,8 milljarðar punda í kjölfar skráningar í Kauphöllina í London. BBC greinir frá.

Deliveroo er heimsendingarþjónusta sem gerir fólki kleift að panta heimsendingu á mat á netinu. Stefnt er á að útboðsgengi hvers hlutar í félaginu verði um 3,9 til 4,6 pund. Yrði um að ræða stærstu skráningu á markað í London í rúmlega sjö ár.

Sjá einnig: Björgólfur gæti stórgrætt á Deliveroo 

Meðal hluthafa í Deliveroo eru netrisinn Amazon og Novator, fjárfestingafélag Björgólfs Thors Björgólfssonar. Líkt og Viðskiptablaðið sagði frá í byrjun mánaðar keypti Novator hlut í Deliveroo árið 2016. Ku fyrirtækið þá hafa verið metið á um 130 milljarða króna en líkt og fyrr segir er vonast eftir því að félagið verði metið á allt að 8,8 milljarða punda, eða sem nemur tæplega 1.533 milljörðum króna.

Þar af leiðandi kann virði félagsins að hafa tæplega tólffaldast að verðmæti á fimm árum.

Pantanafjöldi Deliveroo í janúar og febrúar síðastliðnum ríflega tvöfaldaðist frá sama tímabili í fyrra, enda hefur heimsendingarþjónusta blómstrað sem aldrei fyrr á tímum COVID-19.

Stikkorð: hlutabréf Deliveroo skráning