Þrír af hverjum fjórum kjósendum á Íslandi telja skattamál mikilvægt kosningamál. Telja tveir af hverjum þremur kjósendum skattbyrði sína of háa, en aðeins 1% kjósenda telur hana of lága.

Þetta kemur fram í tveimur könnunum Maskínu sem Viðskiptaráð vísar í, en ráðið hefur kortlagt skattastefnu stjórnmálaafla í framboði til Alþingis í kosningunum nú á laugardaginn.

Áttaviti skýrleika og skattstefnu

Ákvað Viðskiptaráð að setja upp eins konar áttavita með tveimur ásum, annars vegar ás sem sýnir vænt umfang skattheimtunnar, og hins vegar ás sem sýnir skýrleika stefnunnar.

Voru upplýsingar um stefnu flokkanna teknar af heimasíðum þeirra auk þess að horft er til þess hvort kosningaloforðin væru fjármögnuð með skattatillögum. Ef svo var ekki var gert ráð fyrir að þörf væri á frekari skattahækkunum til að uppfylla þau. Einnig var lagt mat á skýrleika stefnunnar.

Sjálfstæðisflokkur og Samfylking yst á ási skattstefnu

Niðurstaðan var sú að stefna Sjálfstæðisflokksins var sú sem fékk flest stig í átt að líklegum skattalækkunum eða í þremur af þeim fimm liðum sem teknir voru saman um þau mál.

Framsóknarflokkurinn var næstur með tvö stig, Viðreisn og Björt framtíð voru álitin bæði í núlli, Píratar og Vinstri grænir í mínus þremur stigum og loks fyllir Samfylkingin skalann með haki í alla fimm dálkana í átt að líklegum skattahækkunum.

Liðirnir voru þannig skipt niður að spurt var hvort standi til að hækka eða lækka skatta á vinnuframlag, neyslu, sparna, rekstur eða hvort það þurfi meiri hækkanir til að fjármagna kosningaloforðin.

Viðreisn og Sjálfstæðisflokkur skýrastir, Björt framtíð óskýrust

Sömu liðir voru settir upp varðandi skýrleika útfærslunnar, þar fá bæði Sjálfstæðisflokkur og Viðreisn fullt hús stiga átt að skýrleika og Samfylkingin er talin næst skýrust með 4 stig í plús og eitt í mínus.

Framsókn og Vinstri græn eru bæði með nettó 2 stig í átt að skýrleika, Píratar eru svo með eitt í mínus eða eitt stig í átt að óskýrleika, og loks fær Björt framtíð fjögur af fimm stigum fyrir óskýrleika og ekkert fyrir skýrleika.