Óhætt er að segja að færeyski bankinn BankNordik starfi líkt og sparisjóður en meginþorri viðskiptavina bankans eru heimili og minni fyrirtæki. Útlánasafn bankans samanstendur að mestu af lánum til slíkra aðila.

Í viðtalið við Viðskiptablaðið spyr blaðamaður Janus Petersen, forstjóra BankNordik, hvort bankinn hafi í hyggju að opna útibú hér á landi í ljósi þess að sparisjóðskerfið hér á landi hafi hálfpartinn verið lagt í rúst og kannski eftirspurn eftir íhaldssömum sparisjóð?

„Nei, ekki eins og sakir standa,“ segir Janus en bætir við að íslensku sparisjóðirnir hafi að öllum líkindum lent í vandræðum þegar þeir fóru út fyrir hefðbundið starfssvið sitt.

„Við höfum þó fylgst vel með og eftir hrunið haustið 2008 mátum við það sem svo að okkur skorti upp- lýsingar og þekkingu á bankastarfseminni hér á landi. Það er algjört grundvallaratriði að menn hafi næga þekkingu til að meta áhætt- una og reka banka hér á landi.“

Nánar aðspurður um þetta vill Janus þó ekki útiloka neitt. Hann segir að alltaf hafi verið sterk tengsl á milli frændþjóðanna, Íslands og Færeyja, og þær eigi margt sameiginlegt. Fyrir utan félagslega þætti nefnir Janus einstaka atvinnu- greinar, s.s. sjávarútveg.

„Það yrði ekkert óeðlilegt við það að reka banka á Íslandi einhvern tíma í framtíðinni,“ segir Janus.

„Það er eðlilegt að starfa á svæðum sem við þekkjum. Þess vegna lítum við á starfssvæði okkar á þessu vest- norræna svæði, þ.e. Færeyjar, Ís- land og Grænland. Við þetta bætist að sjálfsögðu Danmörk. Við erum mikið tengd Danmörku og margir af okkar starfsmönnum hafa lært þar. Við þekkjum því þann markað mjög vel. Jafnvel þó svo að við lítum á Norðmenn sem frændur okkar er ekkert sem gefur tilefni til að hefja þar starfsemi þar sem við þekkjum þann markað lítið.“

Janus segir að BankNordik ætli sér að vera með starfsemi hér á landi til lengri tíma, en sem stendur láti bankinn duga að reka tryggingafélagið Vörð. Hann ítrekar að ekki standi til að hefja hér banka- starfsemi nema að vel ígrunduðu máli.

Í viðtali við Viðskiptablaðið fer Janus Petersen yfir stöðu BankNordik og öran vöxt bankans á sl. árum. Auk þess svarar hann spurningum um eðli bankastarfsemi, hvort BankNordik hafi hug á að opna útibú hér á landi og mýtuna um hinn skynsama færeyska viðskiptaman, svo fátt eitt sé nefnt. Nánar er rætt við Janus í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.

Janus Petersen
Janus Petersen