*

föstudagur, 6. ágúst 2021
Innlent 28. janúar 2017 16:02

Stefna ESB hvetur til ofveiði

Shanker Singham frá Legatum hugveitunni í London kom til landsins til að ræða áhrif Brexit og læra af íslensku sjávarútvegsstefnunni.

Ritstjórn

Til að ræða áhrifin af úrsögn Bretlands úr Evrópusambandinu við ráðamenn og áhrifavalda var Shanker Singham staddur hér á landi, en hann leiðir rannsóknir Legatum hugveitunnar á sviði efnahagsstefnu og framþróunar.

Shanker Singham er lögfræðingur að mennt og sérhæfir sig í verslun og samkeppnismálum hjá hugveitunni Legatum Institute í London og er hann sagður á heimasíðu stofnunarinnar einn helsti sérfræðingur í þeim málum í heiminum.

Hefur hann komið að fríverslunarsamningum og opnun markaða víða um heim og ráðlagt stjórnmálamönnum, bæði í Bretlandi og Bandaríkjunum. Nú einbeitir hann sér að ráðgjöf til stjórnvalda, fyrirtækja og fjölmiðla um hvað taki við í kjölfar úrsagnar Bretlands úr Evrópusambandinu.

„Hluti af Brexit-ferlinu felst í að ná samkomulagi við aðrar þjóðir, þar með talið auðvitað Evrópusambandið og öll önnur lönd, en það sem við erum að gera á Íslandi er að greina möguleikana á tvíhliða samningi milli Íslands og Bretlands, svo að hinu mikilvæga viðskiptasambandi milli landanna verði ekki raskað í Brexitferlinu,“ sagði Singham í samtali við Viðskiptablaðið.

Íslenska kerfið betra

Shanker Singham segir tækifæri liggja í breskum sjávarútvegi nú þegar landið losni undan sameiginlegri sjávarútvegsstefnu sambandsins enda sé þá hægt að læra af reynslu Íslendinga.

„Að fara í átt að kerfi sem myndi byggja algerlega á kvóta sem væri boðinn upp eða framseljanlegur milli útgerða myndi breyta miklu fyrir breska sjómenn. Kerfið yrði aðeins markaðssinnaðra en kosturinn við framseljanlega kvóta er að þeir búa til hvata fyrir sjómenn að fara betur með auðlindina, því þá hafa þeir beinan hag af góðri umgengni við hana,“ segir Singham og telur það vera betri lausn en veiðidagakerfi.

„Bretland gæti farið út í veiðidagakerfi, líkt og ýmsir hafa mælt með, en vandinn við það er að það hyglar smáum útgerðum en ýta undir ofveiði, svo ég held að íslenska kerfið sé betra.

Vandinn við sameiginlegu sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins er að þar ræður sambandið heildarveiðimagni Bretlands, sem samtök sjávarútvegsfyrirtækja deila svo niður á útgerðirnar. Þessu fylgja einnig miklar niðurgreiðslur, bæði til báta og til búnaðar, sem hvetur til ofveiði og veiða á of ungum veiðistofnum sem og að fiski sé hent sem veiðist eftir að komið er fram yfir heimilaðan kvóta.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.